Út er komin enn ein ´80s ábreiðan með Hr. Eydís og að þessu sinni er það mega hittarinn Save a Prayer með þeim félögum í Duran Duran.
Lagið kom út árið 1982 á plötunni Rio og varð á þeim tíma stærsta lag sveitarinnar. Það kom svo aftur út árið 1985 á live-plötunni Arena og varð aftur vinsælt, geri aðrir betur.
Þau sem lifðu þessa tíma og þá sérstaklega unglingsárin eiga eflaust margar góðar minningar við Save a Prayer og kannski eru sumar ljúfsárar. Unglingsástir kviknuðu oft við lagið og margir hafa eflaust stigið sinn fyrsta vangadans við það. Já, þetta var alveg risastórt!
„Ég man vel þegar þetta lag var spilað á skólaböllunum í Hagaskóla á sínum tíma, allir sungu með og maður reyndi að manna sig upp í að bjóða einhverri skólasystur sinni upp í vangadans… en guggnaði,“ segir Örlygur Smári söngvari og gítarleikari Hr. Eydís og brosir að ljúfsárri minningunni og bætir við „þegar Hr. Eydís tók lagið upp í síðustu viku stóð ég mig að því að syngja lagið eins og ég gerði á sínum tíma og textinn var allur bandvitlaus. Það var meira að segja erfitt að reyna að halda sig við rétta textann þó ég hefði hann fyrir framan mig. Save a Prayer er greinilega í vöðvaminninu en að stórum hluta með röngum texta,“ segir Örlygur og skellihlær.