Barið í brestina í Biskupstungum

Leikdeild Umf. Biskupstungna frumsýnir í kvöld gamanleikinn Barið í brestina, eftir Guðmund Ólafsson. Leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson en þetta er sjöunda uppfærsla hans hjá félaginu.

Leikritið er ærslafullur gamanleikur með söngívafi. Alls koma að uppsetningunni um tuttugu manns, fjórtán leikarar, smiðir, hvíslari og ljósamaður. Sýnt er í Aratungu.

Leikritið, sem gerist á sambyggðri heilsugæslustöð og elliheimili á einum degi, segir frá lífi fólksins sem þar býr og starfar. Hvernig það leysir vandamál sem upp koma. Allt gengur sinn vanagang þar til að einn daginn fréttist að velferðaráðherrann ætli að koma í óvænta heimsókn til að skoða magaspeglunartækið sem hann barðist fyrir á þinginu og fjármagnaði á sínum tíma.

Vandamálið er að fjármagnið var ekki notað til að kaupa magaspeglunartækið heldur voru peningarnir notaðir í styrkja knattspyrnulið bæjarins. Núna eru góð ráð dýr og upphefst hinn fjörugasti ærslaleikur. Starfsfólkið þarf að spinna trúverðuga fléttu til að leika á velferðaráðherrann.

Starfsfólk og sjúklingar eru margir hverjir stórfurðulegir og er erfitt fyrir alla að átta sig á sínu hlutverki í fléttunni. Önnur smávægileg atriði sem geta sett strik í reikninginn eru að eini læknirinn sem fékkst er rússnesk flóttakona af kyrrsettum togara, kokkurinn sem er sóði sem reynir allar leiðir til að verða sér úti um ódýrt hráefni og má þá einu gilda hvort það er ætt eða óætt – en staðreyndin er sú: Það er ekkert að skinkunni að hans sögn alla vega.

Fyrri greinTelur breytingarnar framfaraskref
Næsta greinVilhjálmur, Kjartan og Bragi á laugardagsfundi