Á morgun, fimmtudagskvöld kl. 20, leiðir Elfa Rún Kristinsdóttir Barokkbandið Brák á sínum fyrstu tónleikum á Sumartónleikum í Skálholti.
Frumflutt verður nýtt verk eftir staðartónskáld Sumartónleika í Skálholti, Finn Karlsson, leikin verða kammer- og hlómsveitarverk eftir Rameau, de la Guerre og Muffat ásamt splunkunýjum útsetningum Gregoire Simon á Les Dominos eftir Couperin. Á undan tónleikunum kl. 19:30 kynnir Finnur tónlist sína í Skálholtsskóla. Tónleikarnir verða endurteknir laugardaginn 18. júlí kl. 21.
Náttúruhornin verða í sviðsljósinu á öðrum tónleikum Barokkbandsins Brákar sem fluttir verða laugardaginn 18. júlí kl. 16. Ella Vala Ármannsdóttir leikur hornkonsert eftir Telemann, Emil Friðfinnsson slæst með í för í svítu og sinfóníu eftir J.G.Graun, en á milli horntónanna hljóma strengjakammerverk W.F. Bachs og Telemanns.
Barokkbandið Brák er hópur ungs tónlistarfólks sem á það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á barokktónlist, hefur sérhæft sig að hluta í þeirri tónlist erlendis og vill koma upprunaflutningi á framfæri á Íslandi. Langtímamarkmið Barokkbandsins er að taka þátt í uppbyggingu enn stærri barokksenu á Íslandi.