Bergþórutónleikar í Þorlákshöfn

Hinir árlegu Bergþórutónleikar verða haldnir í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss klukkan 16 í dag. Stórskotalið íslenskra popptónlistarmanna kemur fram á tónleikunum.

Fram koma söngvararnir Ragnheiður Gröndal, Pálmi Gunnarsson, Valdimar, Kristjana Stefán og Svavar Knútur.

Ragnheiður Gröndal er í aðalhlutverki sem tónlistarstjóri tónleikanna og kemur fram auk fyrrnefndra söngvara, en ásamt þeim koma fram Guðmundur Pétursson, gítar, Haukur Gröndal, klarinett/saxófónn, Hjörleifur Valsson, fiðla, og Birgir Baldursson, slagverk.

Að vanda verða flutt mörg af þekktustu lögum Bergþóru Árnadóttur, sem ganga þó í endurnýjun lífdaga með ferskum útsetningum. Einnig verða flutt nokkur sjaldheyrðari lög og þar á meðal frumflutt lag sem Bergþóra samdi um miðjan níunda áratuginn en flutti aldrei opinberlega eða hljóðritaði. Eins og á Bergþórutónleikum síðustu ára mun Valný Lára Jónsdóttir, sonardóttir Bergþóru, flytja eitthvert eftirlætislag úr smiðju ömmu sinnar.

Minningarsjóður Bergþóru Árnadóttur stendur að tónleikunum, en hann var stofnaður í framhaldi af velheppnuðum tónleikum vorið 2008 og í kjölfar veglegrar heildarútgáfu með verkum söngkonunnar. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að því að tónlist Bergþóru og minning lifi meðal þjóðarinnar. Árlegir minningartónleikar með mismunandi flytjendum og efnisskrá hafa notið mikilla vinsælda.

Bergþóra Árnadóttir (1948-2007) var einn af frumkvöðlum vísnatónlistar á Íslandi og lengi vel atkvæðamesta konan í hópi söngvaskálda. Hún samdi gjarna lög við ljóð þekktra skálda, þ.á.m. Steins Steinarrs, Tómasar Guðmundssonar og Jóhannesar úr Kötlum. Á ferli sínum sendi hún frá sér allmargar hljómplötur og hélt fjölda tónleika hérlendis og í Skandinavíu.

Miðaverð er 2.500 krónur.

Fyrri greinÖruggur sigur í fyrsta leik
Næsta greinLand undir hreinsistöð kostar 15 milljónir