Sigrún Arna Brynjarsdóttir, yfirþjálfari hjá GYM800, svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvernig var árið 2024 hjá þér? Bara yndislegt og krefjandi allt í bland, svona eins og það á að vera held ég bara.
Hvað stóð upp úr á árinu? Í raun frekar klisjukennt svar, en samvera með vinum og fjölskyldu og fylgjast með börnunum okkar eignast vini og rúlla upp fyrsta skólaárinu á Íslandi eftir 6 ára búsetu í Noregi.
Hvaða lag hlustaðir þú oftast á? Bíómynd með VÆB, myndi halda að það séu 8 ára sonur minn og vinir hans sem séu ábyrgir fyrir því að það tróni á toppnum á mínu Spotify.
Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Einusinni var það nú að fara á hestbak eða gefa hestunum svo þeir væru rólegir yfir sprengjunum, en nú er það liðin tíð, svo líklega er það að þjálfa stút fullan sal af peppuðu fólki á gamlársæfingu GYM 800 og bruna svo í sveitina okkar.
Hvað gerðir þú um áramótin? Var í sveitinni með fjölskyldunni okkar þar.
Hvað var í matinn á gamlárskvöld? Nautakjöt frá afa í Miklaholti.
Strengir þú eitthvað áramótaheit? Sko, nei í raun ekki, trúi eiginlega ekki á heit eitt og sér, en ég trúi á það að búa sér til vana og rútínu, fyrir mig er það eina sem virkar. Öll boð og bönn hafa einhvern veginn bara verið til þess að brjóta þau. Svo ég ætla að reyna koma því í vana að fara út að skokka tvisvar í viku sama hvernig viðrar. Ég er frekar dugleg að hreyfa mig, en mætti vera meira úti eins og við vorum þegar við bjuggum í Noregi, það gerði mér gott, og væri til í að fá það aftur inn í rútínuna.
Hvernig leggst nýja árið í þig? Bara sjúklega vel, hlakka til að halda áfram að fylgjast með börnunum okkar vaxa úr grasi hér á Selfossi, fylgja þeim í íþróttum og leik. En svo er ég líka spennt fyrir nýju ári í starfinu mínu sem yfirþjálfari hjá GYM 800, fyrrum CrossFit Selfoss, við vorum að gera nafnabreytingu og fara til baka í „gamla“ nafnið á stöðinni. Mér finnst breytingin skemmtileg, starfsemin breytist í raun ekkert, nema við ætlum aðeins „back to basic“ ef það má sletta. Bjóða upp á fleiri tíma sem henta stærri hópi fólks, stöðin okkar er stór í fermetrum talið og rúmar því marga. Enda fer iðkendafjöldi sívaxandi og það er gaman. Þjálfarateymið okkar er líka að stækka og það eru skemmtileg og spennandi verkefni framundan 2025.