Árlegt jólabingó Kvenfélags Grímsneshrepps verður haldið með breyttu sniði þetta árið þar sem nýjar sóttvarnarreglur kalla á nýjar útfærslur.
Sunnudaginn 21. nóvember verður haldið bílabingó á bílastæðinu við Félagsheimilið Borg í Grímsnesi. Sala á bingóspjöldum hefst kl. 13:30 og byrjað verður að spila kl. 14. Allur ágóði af bingóinu rennur óskiptur til Sjóðsins góða í Árnessýslu.
Kvenfélagskonur munu ganga á milli bíla, selja spjöld og veita upplýsingar um framkvæmd. Bingóstjórar verða staðsettir innanhúss og streymt frá því á fésbókarsíðu kvenfélagsins þegar bingótölur eru lesnar upp. Þegar heppnir spilarar fá bingó eru þeir beðnir um að gefa það til kynna með flauti.
Verð á fyrsta bingóspjald í bíl er 2.000 kr. en öll spjöld eftir það verða seld á 500 kr. Einungis verður hægt að greiða fyrir bingóspjöld með peningum eða millifæra rafrænt inn á reikning félagsins. Enginn posi verður á staðnum og því ekki hægt að greiða með kortum.
„Við kvenfélagskonur hvetjum sem flesta til þess að koma og styrkja gott málefni,“ segir í tilkynningu frá kvenfélaginu.