Skemmtileg jóladagskrá verður í Listasafni Árnesinga í Hveragerði á loka opnunardegi ársins, sunnudaginn 11. desember þegar boðið verður í bíó kl. 15:00 og 17:00.
Á milli sýninga kl. 16:00 segir Njörður Sigurðsson, sagnfræðingur, frá jólasögum og ljóðum úr Hveragerði og Hafsteinn Þór Auðunnarson flytur tónlist.
Bíóið sem boðið er upp á er um Hveragerði; af hverju fólk fluttist úr skarkala borgarinnar og hóf búsetu á nýjum stað við heita hveri. Fókusinn í myndinni er á Skáldagötunni einng nefnd Frumskógar og við sögu koma ýmsir sagnfræðingar, eldri Hvergerðingar og afkomendur skáldanna. Handritshöfundur og sögumaður er Illugi Jökulsson, stjórn kvikmyndatöku og eftirvinnsla er í höndum Jóns Egils Bergþórssonar, en myndin er unnin að frumkvæði Mortens Geirs Ottesen í Hveragerði og það er hann og Kolbrún Bjarnadóttir sem bjóða Hvergerðingum í bíó.
Eftir jólahlé er safnið aftur opið frá og með 12. janúar 2017. Aðgangur að safninu og dagskrárliðum desember er ókeypis og allir velkomnir.