Birtíngur heldur norður

Leikarar og aðstandendur sýningarinnar Birtíngur hjá Leikfélagi Selfoss héldu í morgun norður á Akureyri þar sem sýningin er hluti af alþjóðlegri leiklistarhátíð.

NEATA-leiklistarhátíðin hefst á Akureyri í dag en þetta er hátíð áhugaleikfélaga á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum. Birtíngur var valinn úr hópi sýninga fyrir Íslands hönd ásamt tveimur öðrum íslenskum sýningum. Önnur þeirra er Vínland frá Freyvangsleikhúsinu en leikstjóri hennar er Selfyssingurinn Ólafur Jens Sigurðsson, en hann leikstýrir einnig uppfærslunni á Birtíngi.

Á NEATA hátíðinni eru sýningar frá öllum Norðurlöndunum, Lettlandi, Litháen, Rúmeníu og Frakklandi. Ein sýning verður á Birtíngi, á fimmtudag kl. 16 í menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

Ferðin norður er viðamikið verkefni enda er um 30 manna hópur með í för. Verkið var stytt nokkuð fyrir hátíðina og hefur hópurinn æft nýju útgáfuna sérstaklega fyrir þessa leikferð.

Fyrri greinFyrsta útkallið á nýjum björgunarbát
Næsta grein50 Selfossstelpur á Símamóti