Biðin er bráðum á enda. Bítlatónleika Kórs Fjölbrautaskóla Suðurlands verða haldnir sunnudaginn 13. maí klukkan 20:00 í íþróttahúsinu Iðu.
Kórinn, undir styrkri handleiðslu Stefáns Þorleifssonar, hefur nýtt síðustu vikur í undirbúning og æfingar með Gunna Óla, Labba og hreint út sagt frábærri hljómsveit skipaða þeim Árna Þór Guðjónssyni, Trausta Erni Einarssyni, Róberti Dan Bergmundssyni og Stefáni Ingimari Þórhallssyni sem gefa Bítlunum sjálfum ekkert eftir.
Þær æfingar hafa gengið eins og í sögu og má segja að hálfgert Bítlaæði hafi gripið um sig í hópnum. Kórinn er nú þegar orðinn ástfanginn að “Drive my car” og ljóst er að þessir tónleikar munu ósa af gleði og bítlafíling!
Kórinn nýtir nú síðustu dagana fyrir tónleikana til þess að leggja lokahönd á sviðið og salinn. Hljóð og ljósakerfi á tónleikunum verður frá EB-kerfi og ekkert til sparað að gera þessa tónleika sem glæsilegasta. Miðasalan er byrjuð í TRS og á trs.is. Einnig er hægt að kaupa miða af kórfélögum og við innganginn.
Þessir tónleikar eru fyrir fólk á öllum aldri og ætti enginn að missa af þeim auk þess sem frítt er inn fyrir 10 ára og yngri í fylgd með fullorðnum.
Þetta er í annað sinn sem Kór FSu ræðst í svo stóra tónleika. Árið 2008 tókust kórfélagar á við tónlist hljómsveitarinnar Queen með Magna Ásgeirsson, Heru Björk Þórhallsdóttur og Eirík Hauksson sem sólóista.