Það var mikið fjölmenni á Sólheimum um síðustu helgi á opnunarhátíð menningarveislunnar, sem heldur áfram um helgina.
Sýningarnar „Svona gerum við“ og „Svona erum við“ vöktu mikla hrifningu um síðustu helgi, enda glæsilegar og óvenjulegar sýningar.
Þessi helgi verður spennandi en bjöllukór og einleikarar frá Tónstofu Valgerðar verða með tónleika í kirkjunni í dag kl. 14:00. Þegar tónleikum lýkur verður Örn Óskarsson með fræðslu um fugla í landi Sólheima og verður gengið um svæðið og fuglalífið kannað. Árleg heimsókn Postulanna, Bifhjólasamtaka Suðurlands, verður síðan þegar þeir koma í breiðfylkingu hingað á Sólheima og leyfa íbúum að þeytast með sér um á mótorfák og dást að hjólunum og er alltaf mikið fjör í kringum þessa heimsókn.
Sunnudagurinn er ekki síður stór dagur en í Sólheimakirkju er messa kl 14:00 og þjónar sr. Axel Árnason Njarðvík í fjarveru Sr. Birgis Thomsen. Á sunnudagskvöldið verða The Saints og Boogie Street Leonard Cohen tribute band með tónleika í Grænu könnunni og ekki amalegt að njóta ljúfra tóna Leonards Cohen með kertaljósum í fallegu umhverfi og góðum félagsskap. Tónleikarnir hefjast kl 20:00.
Sýningarnar, verslunin og kaffihúsið eru opnar frá kl 12 – 18 alla daga en kaffihúsið verður að sjálfsögðu opið lengur á sunnudagskvöldið á meðan tónleikunum stendur.