Leikfélag Sólheima æfir nú Blíðfinn í Íþróttaleikhúsinu á Sólheimum en frumsýning verður að venju á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 23. apríl kl 15:00.
Leikritið byggir á tveimur fyrstu bókum Þorvalds Þorsteinssonar (1960 – 2013). Aðalpersónan er drengurinn Blíðfinnur og fjallar sagan um ævintýraför hans þar sem hann rekst á marga kynlega kvisti og einkennileg fyrirbæri.
Bækur Þorvaldar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og fengið barnabókaverðlaun. Þorvaldur skrifaði einnig Skilaboðaskjóðuna sem sýnd var á Sólheimum árið 2013.
Reynir Pétur Steinunnarson Sólheimabúi samdi tónlistina í verkinu sem hann mun flytja með dyggri aðstoð. Eins mun hann leika frumsamda tónlist sína fyrir sýningar.
Með leikstjórn verksins fer Þórný Björk Jakobsdóttir.
Sýnt verður á laugardögum og sunnudögum til 3. maí. Opið verður í kaffihúsinu Grænu könnunni og versluninni Völu.