Nýlega var sett upp sýning á verkum Amilcar C. A. Sanches, eða Mike San, á Bókasafninu í Hveragerði.
Mike er portúgalskur en hefur búið á Íslandi í nokkur ár og býr nú í Ölfusi. Hann er að mestu sjálfmenntaður í myndlistinni og segist hafa verið svo heppinn að kynnast góðu fólki og ýmsum listamönnum sem hafa veitt honum ómetanlegan innblástur. Mike hefur sótt myndlistarnámskeið í Portúgal og í Barcelona á Spáni, þar sem hann starfaði einnig á keramikverkstæði. Einnig hefur hann sótt keramiknámskeið við Myndlistarskóla Reykjavíkur.
Mike hefur haldið nokkrar sýningar á verkum sínum, m.a. á veitingastaðnum „Á næstu grösum“ í Reykjavík árið 2005 og hér á bókasafninu í janúar 2011. Hann er nú nýkominn frá Portúgal þar sem hann málaði mikið og má sjá hluta af afrakstri þeirrar vinnu á sýningunni, sem hann kýs að kalla Flowers ´N Seeds (Blóm og fræ), enda allar myndirnar málaðar undir áhrifum af grósku og vexti sólblóma í umhverfi hans í Portúgal. Myndirnar eru málaðar með blandaðri aðferð og eru allar án ramma. Á sýningunni eru einnig skissur og ýmsir munir sem tengjast efninu og Portúgalsferð hans og einnig rúlla ljósmyndir á skjá.
Sýningin er opin um leið og safnið, virka daga kl. 13-19 og laugardaga kl. 11-14 og stendur til 31. október.