Blómstrandi dagar hefjast í dag

Ljósmynd/Blómstrandi dagar

Tónleikar, Ísdagur Kjörís, fjölskyldudagskrá, Blómaball, tívolí, markaðir, flugeldasýning og margt fleira.

Það er stórglæsileg og stútfull dagskrá alla helgina í Hveragerði þegar Blómstrandi dagar verða haldnir í 29. sinn. Hátíðin hefst í dag og lýkur sunnudaginn 18. ágúst.

Íbúar, fyrirtæki og félagasamtök í bænum setja mikinn svip á dagskrá Blómstrandi daga með þátttöku sinni. Hús, garðar, götur og fyrirtæki skreyta í sínum hverfalitum og auðvitað verða veitt verðlaun fyrir bestu skreytingarnar. Margir bjóða gestum hátíðarinnar í fyrirtækið eða garðinn til sín og eru þá með veitingar, lifandi tónlist, markaði, jóga, alls konar tilboð og almenn skemmtilegheit.

Blómstrandi dagar eru fjölskylduhátíð og því mikið lagt upp úr því að allir aldurshópar finni eitthvað við sitt hæfi.

Fjölmargir listamenn stíga á stokk á Blómstrandi dögum þetta árið og má þar nefna Herra Hnetusmjör, Siggu Beinteins, Teit, KK, VÆB og Gunna Óla en þá er fátt eitt talið. Blómaballið mun standa fyrir sínu eins og venjulega en þar munu Blaz Roca, Gunni Óla, Hreimur og Unnur Birna sýna sínar bestu hliðar ásamt hljómsveit og þar má búast við blómlegu fjöri fram eftir nóttu í íþróttahúsinu.

Taylor‘s Tivoli mætir á svæðið og verður opið alla dagana og þar í grennd verða einnig matarvagnar með ýmsu góðgæti.

Ekki má svo gleyma hinum árlega Ísdegi Kjörís sem verður við Kjörís á laugardaginn og þar er alveg kjörið að njóta skemmtiatriða og íss með alls kyns bragðtegundum.

Fyrri greinVeiðidagur í Soginu á sunnudaginn
Næsta greinReynsluboltar styrkja verslanasvið Samkaupa