Það verður sannkölluð menningar- og heilsuveisla dagana 15. – 18. ágúst í Hveragerði þegar bæjarhátíðin Blómstrandi dagar fer fram.
Fjölbreytt afþreying verður alla dagana og líf og fjör í bænum. Markaðsstemmning verður áberandi því margir íbúar verða með heimasölur þessa daga og þjónustufyrirtæki með plöntu-, grænmetis- og bókamarkað og önnur með skemmtidagskrá og glæsileg tilboð.
Á laugardeginum verður Ísdagurinn hjá Kjörís en þá er öllum Íslendingum boðið upp á ís í miklum mæli og koma m.a. Ingó, Latibær o.fl. í heimsókn.
Börnin eru ávallt í fyrirrúmi á hátíðinni og er margt skemmtilegt í boði fyrir þau eins og leiksýning Lottuhópsins, Sirkus Íslands, töframaður, veltibíllinn, leiktæki, hoppukastalar og tónlistarskemmtun.