Bogomil og Blikandi stjörnur

Það verður mikið um að vera á Sólheimum í dag, tvennir tónleikar og fyrirlestur um rafsegulmengun.

Bogomil Font eða Sigtryggur Baldursson og Davíð Þór Jónsson flytja dægurperlur og kalypso smelli frá síðustu öld í Sólheimakirkju kl. 14.

Kl. 15 mun Siiri Lomb, byggingarvistfræðingur, halda fyrirlestur í Sesseljuhúsi um rafsegulmengun í byggingum af völdum raftækja, þráðlauss nets og gsm síma.

Landsþekkti gleðigjafinn Blikandi stjörnur er sönghópur fólks með fötlun, sem hefur starfað frá árinu 2000. Hópurinn hefur komið víða fram bæði hér á landi og erlendis, auk þess sem þau hafa unnið til verðlauna fyrir starf sitt m.a. frá Evrópusambandinu.

Hópurinn mun syngja á kaffihúsinu Grænu könnunni kl. 16 og Árni Alexandersson íbúi á Sólheimum mun hita upp fyrir hópinn og spila nokkur frumsamin lög.

Blikandi stjörnur gáfu út geisladisk fyrir nokkru með íslenskum dægurlögum í samstarfi við Magnús Kjartansson. Þjálfari þeirra er Ingveldur Ýr.

Frítt er inn á alla viðburðina og allir velkomnir.

Menningarveislan á Sólheimum stendur til 13. ágúst með tónleikum, fræðslufundum og listsýningum. Opið á Grænu könnunni og í versluninni Völu alla daga í sumar kl. 12:00-18:00.

Nánar um dagskrá: www.solheimar.is

Fyrri greinGengur vel í Landeyjahöfn
Næsta greinLýðveldið í fjörunni