Sunnudaginn 12. nóvember kl. 20:00 verður boðið upp á menningardagskrá á Restaurant Mika í Reykholti í Biskupstungum. Fimm rithöfundar mæta og lesa úr nýútkomnum bókum og Unnur Malín Sigurðardóttir leikur létta tónlist.
Höfundarnir eru Guðmundur Brynjólfsson sem les úr skáldsögunni Tímagarðinum, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir sem les úr smásagnasafni, Sigríður Helga Sverrisdóttir sem les úr ljóðabókinni Haustið í greinum trjánna, G. Jökull Gíslason sem les úr bókinni Föðurlandsstríðið mikla og Maria Mitrofanova og Bjarni Harðarson sem les úr skáldsögunni Í skugga drottins.
Þess má geta að Sigríður Helga á ættir að rekja í Tungurnar, Ingibjörg Elsa er meðal húseigenda á Sigurðarstöðum í Laugarási og bók Bjarna fjallar um bændur Skálholtssóknar á 18. öld. Skáldsaga Guðmundar gerist aftur á móti á hringveginum íslenska og bók Jökuls er sagnfræðibók um seinni heimsstyrjöldina þar sem við sögu kemur kona sem nú býr í Breiðholtinu en tók þátt í stríðinu sem hermaður í Rauða hernum.