Bókamarkaður, bókastrætó og upplestur úr óútgefnum skáldverkum

Í tilefni af átakinu Leyndardómar Suðurlands 28. mars – 6. apríl verður ókeypis í strætó innan svæðisins og það sem meira er, í vögnunum verða ókeypis bækur sem gestir geta gluggað í á leiðinni og haft með sér.

Þetta er meðal þess sem undirbúningshópur um stofnun Bókabæjanna austanfjalls kemur að þessa daga. Þá verður opið hús í Konubókastofunni á Túngötu 40 á Eyrarbakka í dag, sunnudaginn 30. mars kl. 14-16. Í Bókasafni Árborgar á Selfossi verður bókamarkaður og Bókakaffið er með 20% afslátt af öllum notuðum bókum þessa daga.

Í Bókasafninu í Sunnumörk í Hveragerði verður dagskrá um barnabækur 2. apríl kl. 17 þar sem þátttakendur í Stóru upplestrarkeppninni kynna uppáhaldsbarnabækur sínar. Þá stendur Bókasafnið í Hveragerði og Listasafn Árnesinga fyrir bókmenntadagskrá sem heitir Uppspretta hugmynda laugardaginn 6. apríl með Guðrúnu Evu Mínervudóttur rithöfundi í Hveragerði. Dagskráin hefst í bókasafninu í Sunnumörk klukkan 13.

Fimmtudagskvöldið 3. apríl verður sérstök bókakynning í Bókakaffinu á Selfossi þar sem sunnlenskir rithöfundar lesa úr óútgefnum verkum sínum. Það eru Guðrún Eva Mínervudóttir, Oddný Eir Ævarsdóttir, Jón Hjartarson, Guðmundur Brynjólfsson, Pjetur Hafstein og Bjarni Harðarson úr óútgefnum verkum sínum. Húsið verður opnað klukkan 20 og aðgangur er ókeypis.

Formleg stofnun Bókabæjanna austanfjalls verður nánar kynnt síðar í vor en þar er stefnt að aðild að Alþjóðasamtökum bókabæja.

Fyrri greinStjarnan gerði út um leikinn í lokin
Næsta greinSpjallað um Nútímakonur