Sú nýbreytni verður tekin upp nú í haust á Bókasafni Árborgar Selfossi, að bjóða dagforeldra sem og foreldra sem eru heima og börnin þeirra sérstaklega velkomin á föstudagsmorgnum frá kl. 9-11.
„Bókasafnið er notalegur staður til að hittast og spjalla saman, fá sér kaffi og leyfa börnunum að hittast innan dyra í notalegu umhverfi þar sem þau geta skoðað bækur fyrir alla aldurshópa og leikið sér með dótið okkar. Þar er hægt að koma og hitta fólk, kíkja í blöðin og fylgjast með sýningunum í Listagjánni og njóta samverunnar,“ segir Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, forstöðumaður bókasafnsins.
„Við höfðum ekki hugsað okkur að hafa neina sérstaka dagsskrá en ef einhverjir úr hópnum vilja nota tækifærið og kynna áhugavert efni fyrir kollegum sínum þá er það velkomið. Engar skráningar eða mætingaskylda og að sjálfsögðu ekkert gjald tekið fyrir þetta. Bara hjartanlega velkomin,“ bætir Dóra við.
Auk þessarar nýungar má bæta við að handavinnukvöldin á bókasafninu eru að byrja aftur og verða með svipuðu sniði og áður. Fyrsti fundur er fimmtudaginn 18. október frá kl. 19:30 – 21:30.
„Þar eru allir velkomnir sem eru að prjóna, hekla eða með aðrar hannyrðir til að koma og eiga notalega kvöldstund og spjall. Ef einhver lumar á skemmtilegum eða áhugaverðum upplýsingum til að deila með hópnum þá er til tjald og skjávarpi og það verður heitt á könnunni,“ segir Dóra og bætir við að á bókasafninu er einnig leshringur sem er öllum opinn.
„Leshringurinn hittist annan fimmtudag í hverjum mánuði. Næsti fundur er 8. nóvember kl. 17:30 í Lesstofu safnsins og þá ræðum við skáldsögur Bjarna Bjarnasonar rithöfundar, þannig að það væri gott að vera búin að lesa einhverja þeirra. Bjarni er að gefa út nýja skáldsögu núna í nóvember, Læknishúsið, sem mun fjalla um veru þeirra hans og Katrínar konu hans í Læknishúsinu á Eyrarbakka. Bókin er fjölskyldu-ættar-spennu-og draugasaga,“ segir Dóra ennfremur en allir eru velkomnir í leshringinn og engin skráning nauðsynleg.
Allar nánari upplýsingar um starfsemi bókasafnsins má finna á Facebook.