Í dag kl. 17:30 verður annað erindi um persónur í Njálu í Bókasafninu í Hveragerði. Þá fjallar Bjarni Eiríkur Sigurðsson sögumaður um Flosa Þórðarson, sem einnig er nefndur Brennu-Flosi.
Í síðasta mánuði fjallaði Bjarni Eiríkur um Hallgerði langbrók við góðar undirtektir. Þessi erindi tengjast sýningu á myndverkum Þórhildar Jónsdóttur af persónum í Njálu en síðasti sýningardagur er einmitt í dag. Myndirnar eru í eigu Bjarna en þær eru unnar eftir lýsingum hans á persónum Njálu eins og hann taldi að þær hefðu getað litið út í lifanda lífi.
Bjarni Eiríkur er þekktur fyrir Njáluerindi sín í Sögusetrinu á Hvolsvelli og víðar. Margir muna einnig eftir honum gegnum skólastarf, hestamennsku, ferðamennsku og vegna tengsla hans við Hveragerði, en Bjarni hefur búið bæði í Hveragerði og Ölfusi.
Þórhildur er fædd að Breiðabólstað í Fljótshlíð. Hún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1968-1972 og hefur síðan starfað við grafíska hönnum og málun. Síðustu 25 árin hefur hún rekið eigin vinnustofu, Auglýsingastofu Þórhildar. Þórhildur fæst m.a. við olíu-, vatnslita- og pastelmyndir, blek-, krítar- og tölvuteikningar, en myndirnar á sýningunni eru einmitt unnar með hjálp tölvutækni.
Allir eru velkomnir á bókasafnið til að hlýða á erindi Bjarna. Boðið verður upp á kaffi og spjall eftir erindið.