Föstudagslagið með Hr. Eydís í dag er með ensku hljómsveitinni Johnny Hates Jazz og heitir Shattered Dreams. Lagið kom út árið 1987 og skaut þeim félögum upp á stjörnuhimininn.
Fleiri lög komu svo í kjölfarið eftir útgáfu LP-plötunnar Turn Back The Clock og mörg þeirra urðu líka mjög vinsæl. Sveitin var einmitt svo vinsæl um tíma á Íslandi að þeir félagar áttu tvö lög á topp 10 á Íslandi, geri aðrir betur.
Johnny Hates Jazz leystist upp ekki löngu síðar og féll í gleymskunnar dá. Sveitin var hins vegar endurvakin árið 2009 og túrar enn, sérstaklega á 80´s hátíðum víða um heim.
„Þeir þóttu voðalega huggulegir strákarnir í Johnny Hates Jazz. Voru vel klæddir og hálfgerðir tengdamömmudraumar,“ segir Örlygur söngvari Hr. Eydís og bætir við „…en lögin voru bæði góð og grípandi og mikið spiluð á skólaböllum. Maður reyndi að klæða sig upp eins og þeir og tókst misjafnlega vel. Ég ákvað reyndar að klæða mig í þeirra anda þegar við tókum lagið upp. Félagar mínir í Hr. Eydís sögðu mig samt meira eins og rapparann Pitbull en Johnny Hates Jazz. Dæmi hver fyrir sig,“ segir Örlygur og hlær.