Bryggjuhátíðin hefst í kvöld

Stokkseyringar boða nú til Bryggjuhátíðar í sjöunda sinn. Dagskráin hefst í kvöld og stendur fram á sunnudag.

Hápunktur hátíðarinnar er að vanda á föstudagskvöld þegar fjölskylduskemmtun verður á Stokkseyrarbryggju. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kemur í heimsókn og lendir á bryggjunni. Árni Johnsen stjórnar bryggjusöng við varðeld eins og hann hefur gert á öllum hátíðunum.

Hljómsveitin Granít frá Vík í Mýrdal verður með bryggjuball þar sem áhersla verður m.a. á lög Bítlanna og Rolling Stones og munu þá þekktir meðlimir bætast í hljómsveitina svo um munar.

Hátíðin hefur sem fyrr að undirtitli „Brú til brottfluttra“ og fjölmenna þeir á Stokkseyri ásamt Sunnlendingum og gestum víðar að.

Það er Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi sem stendur fyrir Bryggjuhátíðinni í samvinnuverkefni heimaaðila og fleiri vina.

Dagskrá hátíðarinnar má sjá á www.stokkseyri.is

Fyrri greinBúngaló miðlar bústöðum
Næsta greinMarkalaust á Hvolsvelli