Hin árlega Bryggjuhátíð á Stokkseyri er haldin um helgina en hátíðin verður sett á Stokkseyrarbryggju klukkan 20 í kvöld.
Íbúar eru hvattir til að skreyta hús sín en verðlaun fyrir best skreytta húsið verða afhent á setningarathöfninni, áður en Alexander Olgeirs telur í bryggjusönginn. Að honum loknum verður ball á Draugabarnum með Magnúsi Kjartani.
Á morgun, laugardag, verður ýmislegt í boði og má þar nefna Leikhópinn Lottu, BMX brós, markað á Bankatúninu, fornbílasýningu og hringekju og hoppukastala.
Alla helgina verða opin hús í Gallerí Svartakletti, Gallerí Gimli, á Brimrót auk þess sem Draugasetrið og Veiðisafnið eru opin, svo fátt eitt sé nefnt.