Út er komin bókin Grafningur og Grímsnes – Byggðasaga í ritstjórn Sigurðar Kristins Hermundarsonar.
Í bókinni er fjallað um Grafning, sögu og mannlíf, á árunum 1890-2012 og Grímsnes að hluta til, þ.e.a.s. sem tekur einkum til Sogsvirkjana og Ljósafossskóla. Hverri jörð er lýst í knöppu máli og í ábúendatali er þráðurinn rakinn bæ frá bæ eftir hinni gömlu boðleið og grein gerð fyrir ábúendum og niðjum þeirra.
Mikið ítarefni er hluti af verkinu, sem lýtur m.a. að staðfræði, atvinnuháttum, sögu og sögum, þjóðfræði og þjóðháttum. Fjöldi merkra ljósmynda prýðir það, frá öllum þeim tíma sem um er fjallað. Þetta vandaða og viðamikla ritverk, sem er mikilsvert innlegg í sunnlenska byggðasögu, er gefið út af Bókaútgáfunni Hólum.