Daði Freyr mætir aftur til leiks

Ljósmynd/RÚV

Tónlistarmaðurinn Daði Freyr Pétursson og hljómsveitin Gagnamagnið eru meðal keppenda í Söngvakeppni Ríkissjónvarpsins 2020. Lögin tíu sem taka þátt voru kynnt til leiks í kvöld.

Daði Freyr sló í gegn í keppninni fyrir þremur árum síðan og varð í 2. sæti eftir einvígi við Svölu Björgvinsdóttur.

Nú mætir Daði aftur til leiks. Lagið heitir Gagnamagnið, eða Think about things, og er flutt af Daða og Gagnamagninu og keppir á seinna undanúrslitakvöldinu, þann 15. febrúar.

Lögin tíu munu keppa á tveimur undanúrslitakvöldum sem fara fram þann 8. og 15. febrúar. Tvö lög úr hvorri undankeppni komast áfram í úrslitin í gegnum símakosningu almennings og munu því fjögur lög keppa til úrslita í Laugardalshöll 29. febrúar þegar framlag Íslands í Eurovision söngvakeppninni í ár verður valið.

Daði Freyr er ekki eini fulltrúi Sunnlendinga í keppninni því Einar Bárðarson er annar textahöfunda í laginu Ekkó, sem flutt er af Nínu.

Fyrri greinGul viðvörun: Miklar leysingar og vatnavextir
Næsta greinÖruggur sigur á botnliðinu