Daði og Gagnamagnið sigruðu í Söngvakeppninni

Daði og Gagnamagnið. Ljósmynd/Karítas Sigvaldadóttir

Daði Freyr og Gagnamagnið verða fulltrúar Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Hollandi í maí.

Fimm lög tóku þátt á úrslitakvöldinu í kvöld og fór það svo að lokum að Daði og Gagnamagnið, með lagið Think About Things, háðu einvígi gegn hljómsveitinni Dimmu með lagið Almyrkvi.

Fagnaðarlætin voru gríðarleg þegar úrslitin voru tilkynnt en Daði og Gagnamagnið sigruðu og tók Daði Freyr við verðlaunagripnum úr höndum Hatara sem sigraði í fyrra.

„Ég er bara góður. Við erum að fara í Eurovision!“ sagði Daði þegar hann tók við verðlaununum.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva verður haldin í Rotterdam í Hollandi 12.-16. maí næstkomandi.

Fyrri greinRangæingarnir afgreiddu Þór/KA
Næsta greinRúta fór útaf við Pétursey