Sunnudaginn 18. júlí næstkomandi verður Dagur íslenska fjárhundsins haldinn hátíðlegur í sjötta sinn.
Eigendur íslenskra fjárhunda munu að venju koma saman í stærri og smærri hópum og njóta dagsins með ferfættum vinum sínum.
Sú hefð hefur skapast að Árbæjarsafn hefur boðið meðlimum í Deild íslenska fjárhundsins að heimsækja safnið með hunda og setja saman dagskrá til að kynna hundinn, eðli hans og sögu fyrir gestum safnsins. Íslenskir fjárhundar verða í Árbæjarsafninu frá klukkan 13 til 17 á sunnudaginn.
Í ár verður dagskráin að mestu á netinu til að gefa fjölmörgum erlendum unnendum kynsins kost á því að koma að því að gera daginn fræðandi og skemmtilegan.
Dagskránni verður streymt á Facebooksíðunni Dagur íslenska fjárhundsins og byrjar klukkan 13 á sunnudaginn.