Bergþóra Snæbjörnsdóttir frá Úlfljótsvatni hefur sent frá sér sína fyrstu ljóðabók, Daloon dagar. Bergþóra les uppúr bókinni á Sunnlenska bókakaffinu í kvöld.
Þrátt fyrir að þetta sé fyrsta ljóðabók Bergþóru þá hefur hún verið virk innan grasrótarinnar í Reykjavík og tekið þátt í fjölda listviðburða og upplestra þar og um allt land. Um síðustu helgi fór hún ásamt hópi ungra skálda til Akureyrar og las upp úr nýju bókinni í Populus Tremula og var það mjög vel lukkað.
“Ég tilheyri hópi ungs fólks sem var að setja á laggirnar nýtt útgáfubatterý eða höfundaforlag undir formerkjum bókabúðarinnar Útúrúrdúr. Bókin mín og bók sem ber titilinn Lömbin í Kambódíu (og þú) eftir Jón Barka Magnússon, eru fyrstu bækurnar sem koma út á vegum þessa nýja höfundaforlags,” sagði Bergþóra í samtali við sunnlenska.is en bækurnar komu báðar út sl. föstudag, 11.11.11.
Daloon dagar er um 80 blaðsíður. Kápumyndin og myndskreytingar eru eftir myndlistarkonuna Rakel McMahon.
Sem fyrr segir les Bergþóra upp úr bókinni á Sunnlenska bókakaffinu í kvöld kl. 20 og síðan verður útgáfuhóf í Útúrdúr á laugardaginn.