Klukkan eina mínútu yfir tólf í nótt kemur út nýtt lag með Dodda og Weekendson. Lagið heitir Friends og fjallar um vináttu þeirra félaganna.
Doddi gengur undir ýmsum nöfnum, er jafnvel betur þekktur sem Doddi litli og listamaðurinn Weekendson er Sunnlendingurinn Jón Þór Helgason. Það er dálítil saga bakvið lagið, að sögn Dodda.
„Já, textinn er sunginn til Jóns en hann var á slæmum stað vegna einangrunar og einmanaleika þegar ég samdi textann og ég vildi reyna að benda honum á að ég væri til staðar,“ segir Doddi og bætir við að textinn sé heiðarlegur, einfaldur, eiginlega barnalegur sem lýsir vel þeim Jóni og þeirra vináttu.
„Jón aðstoðaði mig fyrir nokkrum árum þegar var sjálfur í dimmum dal og vildi ég láta hann vita að hann gæti alltaf leitað til mín þegar hann kíkti í þann dal,“ bætir Doddi við.
Við erum mjög asnalegir
Doddi og Weekendson ráðgera báðir að gefa út plötu á árinu og var því tilvalið fyrir þá félaga að henda í eina ballöðu saman. Í upphafi var hugmyndin hjá Dodda að fá Jón, sem er gítarleikari, til þess að taka upp nokkra gítarhljóma sem hann ætlaði síðan að semja laglínu útfrá, en það vatt heldur betur upp á sig.
„Ég ætlaði að gera mitt fyrsta og eina „shoegaze” lag, sem er ákveðin tegund af hávaða-popprokki. Jón vissi ekkert hvað shoegaze er svo við enduðum með þetta huggulega og nokkuð væmna lag.
Textinn átti alls ekki að vera jákvæður og einfaldur, ég hafði allt aðrar hugmyndir um hluti sem ég vildi koma frá mér. Það var því hálf asnalegt fyrir Jón að vera síðan með í öllu ferlinu í laginu um hann… en það lýsir kannski nokkuð vel okkar vináttu, við erum mjög asnalegir,“ segir Doddi ennfremur.
Vinabönd um allan heim
Þeir ákváðu því að gera lagið saman frá A-Ö og fá með sér nokkra vini utan úr heimi, þar sem það hefur verið frekar erfitt að halda uppi vinskap á þessu ári. Í laginu spilar Claudio frá Ítalíu á bassa, Ricardo frá Kanada á syntha, Graham frá Englandi á trommur og Tijan frá Makedóníu sá um að mixa lagið. Þá sungu þær ÍrisEy og Inger bakraddir.
„Það er okkar ósk að 2021 verði öllu betra fyrir vini, nær og fjær. Planið er að árið 2021 verði ár vina, sama í hvaða formati þeir eru,“ segja þeir félagar að lokum.
Lagið birtist á Spotify og fleiri streymisveitum kl. 00:01 og myndbandið við lagið verður frumsýnt á Nýárskvöld og verður hægt að finna það undir þessari frétt um leið og það fer í loftið.