Selfyssingurinn Katrín Birna Sigurðardóttir er ein þriggja sigurvegara í keppni ungra einleikara, sem Listaháskóli Íslands og Sinfóníuhljómsveit Íslands standa fyrir árlega.
Auk Katrínar Birnu, sem er sellóleikari, sigruðu þau Bjargey Birgisdóttir fiðluleikari og Steinn Völundur Halldórsson básúnuleikari í keppninni. Þau munu stíga á svið sem einleikarar með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Eldborg undir stjórn Mirian Khukhunaishvili þann 25. apríl næstkomandi.
Að þessu sinni voru keppendur alls átján talsins en fyrsta umferðin var í formi myndbandsupptöku og seinni umferðin fór fram í Kaldalóni í Hörpu síðastliðinn þriðjudag. Þar sýndi Katrín Birna framúrskarandi tilþrif þegar hún flutti Rókókó-tilbrigðin eftir Tchaikovsky og mun hún flytja sama verk á tónleikunum með Sinfóníuhljómsveitinni í apríl.
„Ég byrjaði að læra verkið fyrir um ári síðan og flutti það meðal annars á Bachelor-tónleikunum mínum í júní síðastliðnum. Ég valdi þetta verk því það er grípandi og skemmtilegt, og tæknilega krefjandi. Verkið er í hæfilegri lengd og er í bæði klassískum og rómantískum stíl,“ segir Katrín Birna og bætir við að hún sé mjög spennt fyrir komandi verkefni.
„Já, ég get ekki beðið eftir að koma fram með Sinfó enda hefur mig dreymt um að fá að koma fram í Ungum einleikurum í mörg ár,“ segir Katrín Birna að lokum.
Sem fyrr segir standa Listaháskóli Íslands og Sinfóníuhljómsveit Íslands að keppninni en dómnefndina skipuðu þau Sigrún Eðvaldsdóttir, Sigurður Bjarki Gunnarsson, Mathias Halvorsen, Tryggvi M. Baldvinsson og Guðrún Ólafsdóttir.