Bókin Drottningin í Dalnum sem kemur út núna fyrir jólin er aldarspegill áranna 1800 til 1940, þar sem fjallað er um fólk og lífsbaráttu þess.
Sveitasamfélagið, sem var búið að vera óbreytt um aldir, var að breytast í þéttbýlissamfélag. Fjallað er ítarlega um samfélagsgerðina, þjóðfélagsbreytinguna og hagsögu tímabilsins. Höfundur notar ættarsögu forfeðra sinna frá Húnavatnssýslu og Árnessýslu sem ferðafélaga í gegnum tímabilið til þess að tengja saman fólk og samfélag.
Lífshlaup Guðrúnar Margrétar Þorsteinsdóttur, langömmu höfundar er þungamiðja bókarinnar ásamt sonum hennar Þorsteini Konráðssyni bónda á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal og Eggerti K. Konráðssyni afa hans, bónda á Haukagili í Vatnsdal.
Þá er sögð saga ömmu hans, Ágústínu G. Grímsdóttur frá Syðri-Reykjum í Biskupstungum og forfeðra hennar í Hrunamannahreppi og Flóa. Foreldrar hennar voru Kristín Gissurardóttir sem fædd var 1848 í Kolsholti í Villingaholtshreppi í Flóa og Grímur Einarsson sem var fæddur 1841 í Hvítárholti í Hrunamannahreppi en Grímur var af svokallaðri Bolholtsætt. Rakin er saga forfeðra þeirra og sagðar sögur t.d. af þeim hjónum Katrínu Jónsdóttur og Jóni Einarssyni á Kópsvatni og vinnukonu á bænum og Jóni Jónssyni bónda á Skipholti þegar hann hjálpar bróður sínum Fjalla-Eyvindi í leynd með mat í falið bítibúr á Skipholtsvatni. Kristín og Grímur eignuðust 13 börn og fjögur þeirra flutti í Húnavatnssýsluna og er saga þeirra sögð.
Í lokin er fjallað um samferðafólk og ábúendur sérhvers bæjar í Vatnsdal á tímum Guðrúnar Margrétar og sona hennar í Dalnum, árin 1890-1940.