„Mitt er þitt“ er yfirskrift næstu tónleika i tónleikaröðinni Englar og menn í Strandarkirkju. Þar kemur fram dúettinn Duo Atlantica en hann skipa mezzósópransöngkonan Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og spænski gítarleikarinn og tónskáldið Francisco Javier Jáuregui.
Á efnisskrá þeirra eru þjóðlög frá Íslandi, Spáni og Bretlandseyjum.
Guðrún og Javier eru þekkt fyrir að skapa mikla nánd við áhorfendur, innlifun, frumlegt efnisval, heillandi framkomu, tilfinninganæma túlkun og áhugaverðar kynningar, sem færa hlustendur inn í heim hvers lags fyrir sig. Þau komu fyrst fram saman árið 2002 í Guildhall School of Music and Drama í London, þaðan sem þau luku bæði mastersgráðum í tónlist. Síðan þá hafa þau komið reglulega fram í fjölmörgum tónleikasölum og á tónlistarhátíðum víðs vegar í Evrópu, Bandaríkjunum og Afríku.
Englar og menn stendur yfir alla sunnudaga í júlí kl. 14:00 og er nú haldin í fimmta sinn en hátíðinni í ár lýkur með lokatónleikum og messu þann 13. ágúst. Hátíðin í ár er glæsileg sönghátíð líkt og á undanfarin ár, þar sem fram koma margir fremstu söngvara og hljóðfæraleikara landsins ásamt ungum og upprennandi söngvurum.
Í Strandarkirkju er einstakur hljómburður og helgi sem skapar hlýja stemningu og nálægð. Flytjendur sumarsins eru með það í huga við val á efnisskrá sinni sem er afar fjölbreytt og er í takt við anda og sögu staðarins.