Nýverið kom út skáldsagan Kynslóð eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur frá Hólum við Heklurætur.
Þetta er fyrsta skáldsaga Hörpu Rúnar en hún hefur meðal annars gefið út ljóðabókina Eddu, en fyrir hana fékk hún bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2019.
„Upphaflega hugmyndin kviknaði eftir að ég kláraði BA námið í bókmenntafræðinni 2015. Þá ætlaði ég að láta staðar numið á menntaveginum og hella mér út í skrif. Þá átti bókin að vera stutt nóvella, um konu sem getur ekki staðfest sjálfa sig nema í gegnum augnaráð karlmannsins, sem hún leitar í speglinum,“ segir Harpa Rún í samtali við sunnlenska.is.
„Mig langaði að vinna með það hvernig kynin birtast í skrifum hvers annars, láta konur horfa á karla eins og karlar horfa á konur og í rauninni allt renna saman í eitt. Afskaplega áhugaverðar kenningar fyrir nýútskrifaðan bókmenntafræðing, en ekki efni í góða bók. Ég lagði handritið til hliðar, fór í meistaranám þar sem ég lærði bæði að lesa og skrifa ljóð, sem tók dálítið yfir. Þegar ég kom aftur að handritinu fimm árum síðar þá var það eiginlega bara góð hugmynd í leiðinlegum búningi. Svo ég stokkaði aðeins upp, breytti um sjónarhorn, og úr varð Kynslóð.“
Handritið tilbúið á sama tíma og barnið kom undir
„Bókin segir frá mæðgunum Önnu og Helgu sem búa í óskilgreindri sveit eða sveitaþorpi, í nútímanum. Hún er þroskasaga hvorrar um sig, en báðar þurfa þær að fóta sig í heimi sem skyndilega riðar undir fótunum á þeim. Þetta er því saga tveggja kvenna færð í nútíma sveitasögubúning. Þarna er fjallað um fólk á landsbyggðinni í bland við kynlega kvisti og ég er að reyna að draga upp sanna mynd af sveitasamfélagi dagsins í dag. Sannleikurinn verður síðan að mínu mati ekki trúverðugur nema með smá töfrum svo ég sáldraði þeim inn á milli.“
Sem fyrr segir tók það tíma að fullgera söguna frá því að hugmyndin kviknaði. „Ferlið tók allt í allt sex ár, en með miklum hléum. Ég vann í rauninni mjög lítið í handritinu frá 2016-20, en bókin kúldraðist samt alltaf innra með mér. Ég vissi alltaf að þetta væri fyrsta bókin mín, sú sem ég þyrfti að klára áður en ég yrði fullorðin. Þess vegna er kannski dálítið merkileg tilviljun að ég kláraði fyrstu handritsdrög í sömu vikunni og barnið mitt kom undir. Eftir það tók við ritstjórnarvinna og yfirlestur, en ég var svo heppin að Páll Valsson hjá bókaútgáfunni Bjarti var tilbúinn að taka handritið að sér. Síðupróförkina fékk ég svo senda í tölvupósti þegar ég var á leiðinni heim af spítalanum, með nýfædda barnið,“ segir Harpa Rún sem eignaðist sitt fyrsta barn í sumar.
Ekki bara fyrir sveitafólk
Mörg hugtök sem koma fyrir í Kynslóð eru ekki allra að skilja en Harpa Rún segir að einmitt þess vegna sé þetta bók sem á erindi við alla. „Einn yfirlesarinn minn gerði á sínum tíma athugasemd við hvað bókin væri sveitaleg. „Það skilur enginn hverju þú ert að lýsa þegar þú talar um skítmokstur og heyskap, að minnsta kosti ekki Reykvíkingar og þeir eru meginþorri þjóðarinnar, og viltu skrifa eitthvað sem meginþorri þjóðarinnar skilur ekki?“ Þarna missti ég kjarkinn í smá stund, en tvíefldist svo. Ef þetta væri bara bók fyrir þau sem vita hvað það er að stinga út, þá væri bara kominn tími á svoleiðis bók. Nú og kannski eru einhver sem geta þá komist að því hvað útstunga felur í sér.“
„Uppleggið var að bókin væri skemmtileg og gæti virkað sem afþreying, en fyrir þau sem nenna er ýmislegt sem kraumar undir. Hvort sem um er að ræða bókmenntavísanir, þjóðsögur eða dulda merkingu. Miðað við þau viðbrögð sem ég hef fengið hingað til er síðan hægt að rífast töluvert um hvernig hún endar. Sem er vel,“ segir Harpa Rún.
Vonar að bókin hreyfi við einhverjum
Harpa Rún hefur gefið alls konar verk – hún sá til dæmis um að þýða Rómeó og Júlíu ásamt Jóni Magnúsi Arnarsyni vini sínum, verk sem er núna á fjölum Þjóðleikhússins – en Kynslóð er fyrsta skáldsagan Hörpu Rúnar og segir hún að tilfinningin að gefa hana út sé ólík útgáfu fyrri verka.
„Þetta er allt annað. Fyrri bækur voru flestar samvinnubækur, þar sem ég var að reyna að sýna mínar bestu hliðar fyrir meðhöfunda, og draga þau fram á sama tíma. Edda var síðan svo persónuleg og þarfnaðist einlægni til að virka. Og var í rauninni samstarfsverkefni líka, því allt í handritinu fór í gegnum fólkið sem stóð þeim næst, Eddunum í bókinni. Í Kynslóð er ég bara ein og því fylgir mikið meira frelsi. Sagan er skrifuð um málefni sem liggja mér á hjarta og vissulega vona ég að þau hreyfi við einhverjum, en hún er fyrst og fremst bara ærsl og vangaveltur hugsuð til skemmtunar. Ef öllum finnst þetta glatað þá tek ég það ekkert nærri mér, ég er bara svona skrítin,“ segir Harpa Rún brosandi að lokum.
Hægt er að nálgast Kynslóð í öllum bókabúðum og hjá höfundi. Að sögn Hörpu Rúnar er Rökkvi Hljómur, bróðir hennar, einnig með kassa í skottinu.