Einar Már, Huldar Breiðfjörð og Bjartmar á Bókasafninu

Í kvöld kl. 20 verður síðasta upplestrardagskráin á Bókasafninu í Hveragerði á þessari aðventu. Þar koma fram Einar Már Guðmundsson, Huldar Breiðfjörð og Bjartmar Guðmundsson.

Einar Már les úr bók sinni Íslenskir kóngar sem birtir skemmtilega mynd af íslensku samfélagi þar sem Knudsenættin er í aðalhlutverki. Einar Már hefur skrifað skáldsögur, smásögur og ljóð. Hann hefur hlotið Norrænu bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Síðustu tvær bækur Einars voru Hvíta bókin og Bankastræti núll, en líklega er hann þekktastur fyrir Engla alheimsins sem kom fyrst út 1993.

Huldar les úr bók sinni Litlir sopar. Bókin inniheldur 27 athugasemdir og ljóð sem gefa innsýn í Reykjavíkurmannlífið frá óvæntu sjónarhorni og Huldar skammtar okkur í litlum sopum. Huldar hefur áður sent frá sér þrjár skáldsögur: Góðir Íslendingar, Múrinn í Kína og Færeyskur dansur.

Bjartmar flytur eigin tónlist og texta eins og honum einum er lagið. Bjartmar er þekktur fyrir tónlist sína og texta sem gjarna taka fyrir mannlífið á hverjum tíma. Hann vinnur nú jöfnum höndum að tónlist, textagerð og myndlist og er nýbúinn að halda myndlistarsýningu á Bókasafninu í Hveragerði.

Allir eru velkomnir til að njóta notalegrar kvöldstundar á bókasafninu. Hressing í boði safnsins.

Fyrri greinÞarf ekki að fækka í löggunni
Næsta greinStal úr bílum á Selfossi