Hver hefði trúað því að Söngvaborgarlagið I larí lei væri einn heitasti smellur Stuðlabandsins árið 2022? Jú, það er staðreynd, eins og sást best á tónleikum sveitarinnar á Kótelettunni á dögunum.
Stuðlabandið frumsýndi nýtt myndband við lagið í dag, sem tekið var upp á Kótelettunni og er óhætt að segja að stemningin sé rosaleg.
„Það er svolítið síðan að við vorum að spila með Siggu og Grétari, og þau voru með þetta lag á prógramminu. Upp frá því höfum við látið það halda sér, því þetta lag er einhver sú mesta stuðsprengja sem hefur komið út,“ segir Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvari Stuðlabandsins, í samtali við sunnlenska.is þegar hann er spurður að því hvernig lagið lenti á prógramminu hjá hljómsveitinni.
„Um leið og fyrstu nóturnar voru slegnar á Kótelettunni varð allt gjörsamlega vitlaust. Ég held að ég hefði alveg getað sleppt því að syngja eina nótu í þessu lagi, Söngvaborgarkynslóðin og allir foreldrar þeirra eru með þetta á hreinu,“ bætti Magnús við hlæjandi.
Það er sambataktur í útgáfu Stuðlabandsins, alveg eins og í upprunalegri útgáfu lagsins með brasilísku söng- og leikkonunni Xuxa. Þar nefnist það Ilariê, en Sigga Beinteins tók lagið upp á sína arma með texta Ómars Ragnarssonar og kom það út á plötunni Flikk-flakk árið 1998.
Sjón – og heyrn – er sögu ríkari:
Framleiðsla: Stuðlabandið.
Hljóð- & myndblöndun: Fannar Freyr Magnússon.
Hljóðupptaka: Marinó Geir Lilliendahl.
Myndataka: Hafdal framleiðsla & ProMynd.