Einstakir jólatónleikar í Skálholtsdómkirkju

Kór Menntaskólans að Laugarvatni. Ljósmynd/Aðsend

Kór Menntaskólans á Laugarvatni heldur sína árlegu jólatónleika 29. nóvember næstkomandi í Skálholtsdómkirkju. Um er að ræða aukatónleika en uppselt er á báða tónleikana þann 30. nóvember.

„Jólatónleikar ML kórsins þetta árið verða með óhefðbundnu sniði. Áralöng hefð er fyrir því að kór Menntaskólans að Laugarvatni haldi sína jólatónleika í Skálholtsdómkirkju og nú verður verkefnið enn stærra og í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Suðurlands sem mætir til leiks ásamt einsöngvurum. Hér er sannarlega um að ræða viðburð sem einungis gerist einu sinni á ferlinum hjá menntaskólakór en hann hefur verið undir styrkri stjórn Eyrúnar Jónasdóttur í tæp fimmtán ár,“ segir Jóna Katrín Hilmarsdóttir, skólameistari ML, í samtali við sunnlenska.is.

ML kórinn og Eyrún Jónasdóttir, stjórnandi hans, hlutu Menntaverðlaun Suðurlands árið 2019.
sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ríkuleg tónlistarmenning á Suðurlandi
Lokatónleikar annarinnar, bæði haust og vor, eru hluti af námsmati kórsins en ML kórinn er framhaldsskólaáfangi þar sem nemendur fá einingar fyrir kórstarfið.

„Kórsöngur hefur um kynslóðir verið þjóðargleði og mikið uppeldisstarf fyrir komandi kórahald fer fram í ML kórnum. Nemendum sem aldrei hafa snert á tónlistarnámi gefst kostur á að kynnast því í gegnum kórstarfið og nemendur sem hafa mikla reynslu af og áhuga á tónlist fá að njóta þess að starfa og menntast enn frekar í tónlist. Þessi verðmætasköpun framhaldsskólakóra eru Sunnlendingum að góðu kunn enda hlutu ML kórinn og Eyrún Menntaverðlaun Suðurlands árið 2019.“

Jóna Katrín segir að það sé mikil tilhlökkun fyrir næstu helgi, þegar margir af færustu hljóðfæraleikurum Suðurlands bætast í hópinn. „Tónlistarmenning á Suðurlandi er ríkuleg og mikilvægt fyrir okkur öll að fá að njóta þeirra gæða og að styðja við þetta glæsilega starf. Guðmundur Óli Gunnarsson hefur unnið ötullega að því að koma á fót sinfóníuhljómsveit á Suðurlandi sem er grundvöllur fyrir því að við getum skapað tækifæri fyrir atvinnuhljóðfæraleikara okkar Sunnlendinga en hljómsveitin var formlega stofnuð í júní árið 2020.“

ML kórinn í Skálholtsdómkirkju. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

124 raddir
Jólatónleikar ML í Skálholtsdómkirkju verða einstakir fyrir margra hluta sakir og mega gestir búast við að jólaandinn komi yfir þá í kirkjunni. „Það er engu öðru líkt að vera áheyrandi í Skálholtskirkju í upptakti aðventunnar og hlýða á fallega jólatóna frá yfir 100 ungum röddum. Í þetta skiptið eru 113 nemendur í ML kórnum og þeim til stuðnings verða ellefu fyrrum nemendur skólans með í söngnum og því verður kórinn samtals skipaður 124 röddum.“

„Altarismynd Nínu Tryggvadóttur þar sem Kristur opnar faðminn mót kirkjugestum í mósaíkpixlaðri mynd er í bakgrunni á meðan bjartar raddir dynja á tónleikagestum. Það er fátt sem líkist því og andinn lyftist og von til framtíðar fæðist í hjörtum viðstaddra,“ bætir skólameistarinn við.

Jóna Katrín segir að enn séu lausir miðar á aukatónleikana 29. nóvember en uppselt er á báða tónleika á laugardaginn, 30. nóvember. „Miðana er hægt að kaupa á www.tix.is. Oftar en ekki hafa færri komist að en vilja á tónleika ML kórsins og því er hér tækifærið komið fyrir aðdáendur kórsins að hefja aðventuna á tónlistarviðburði af dýrustu sort,“ segir Jóna Katrín að lokum.

Fyrri greinSumma & Sundrung verðlaunuð í Tékklandi
Næsta greinInga Sæland og þú