„Einstakt að upplifa gestrisni Eyrbekkinga“

Ljósmynd/Aðsend

Listamenn frá öllum heimshornum taka nú þátt í Alþjóðlega listavinnusetrinu SAGA á Eyrarbakka sem haldið er í fjórða sinn.

Samfélagsleg þátttaka og áhersla á nýjar upplifanir eru kjarnagildi í starfi listavinnusetursins og er því lögð áhersla á að listamennirnir fái að skyggnast inn í sögu bæjarins og kynnast samfélaginu út frá ýmsum sjónarhornum.

„Samfélagið á Eyrarbakka hefur opnað arma sína fyrir listamönnunum sem fá tækifæri til að vinna með unglingunum í Barnaskólanum, eldriborgurum á dvalarheimilinu og föngum á Litla-Hrauni,“ segir Hrefna Lind Lárusdóttir, ein þeirra sem stendur að listavinnustofunni.

Litla-Hraun opnaði dyrnar
Í ár er unnið út frá þema tengt tímaskynjun eða Doing Time og næstkomandi laugardag þann 8. febrúar verða tvær sýningar á afrakstri listavinnusetursins, ein fyrir fanga og starfsmenn Litla Hrauns og önnur opin almenningi í Eyrarbakkakirkju klukkan 18:00.

„Það er alltaf jafn einstakt að upplifa gestrisni Eyrbekkinga. Undanfarin ár höfum við verið að vinna með unglingunum í Barnaskólanum og er þetta orðinn fastur liður í þeirra skólagöngu, að hitta listamenn og spjalla um lífið og kanna ýmsar leiðir til listsköpunar. Það sem er frábrugðið í ár frá þeim fyrri er að Litla-Hraun féllst á að opna dyr sínar fyrir okkur og fórum við því í heimsókn í vikunni,“ segir Hrefna Lind.

Á laugardaginn kemur munu listamennirnir síðan vinna með föngunum á skapandi hátt og sýna afrakstur vinnustofunnar í húsakynnum Litla Hrauns fyrir fanga og starfsmenn.

Listamennirnir skelltu sér á Bakkablót
„Þetta er líka fyrsta árið sem við náðum að hitta nánast alla bæjarbúa því við skelltum okkur fyrsta daginn á Bakkablót sem var heldur betur skemmtilegt. Þar fengu listamennirnir að bragða á súrsuðum hrútspungum, hlusta á innanbæjargrín og hitta fólk á dansgólfinu. Á mánudaginn var buðu líka nokkrar fjölskyldur listamönnunum í hversdagslegan heimilismat og við erum ekki frá því að þar hafi myndast vináttubönd. Auk þess höfum við fengið heimsóknir frá ýmsum listamönnum úr nágrannasveitum og skoðað náttúruna á Suðurlandi,“ segir Hrefna Lind og bætir við að dvölin á Bakkanum hafi verið endurnærandi, veitt innblástur og kynt undir sköpunargleði.

„Það er listamönnunum dýrmætt að fá tækifæri til að kynnast staðnum sem þau dvelja á ásamt rými og tíma til að skoða hvað getur haft áhrif á og stutt við listsköpun þeirra. Það sem skiptir þó mestu máli er að geta gefið til baka til samfélagsins með list af ýmsum toga í þakkarskini fyrir ríkulega gestrisni. Við viljum því bjóða alla velkomna að hitta okkur og sjá afrakstur listavinnusetursins í Eyrarbakkakirkju laugardaginn 8. febrúar klukkan 18:00. Síðar um kvöldið, kl. 22:00, munum við færa okkur yfir í gamla frystihúsið,  Saga Music Hall, þar sem hljómsveitin Johnny and the Rest mun spila,“ segir Hrefna Lind að lokum.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinKristján nýr stallari Mímis
Næsta greinÓvenju mjúkar og bragðgóðar kleinur