Eldvötn, samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi, standa fyrir málþinginu „Einstök náttúra Eldsveitanna“ sunnudaginn 20. nóvember kl. 14:30 í Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri.
Frummælendur á málþinginu eru Vigfús G. Gíslason frá Flögu í Skaftártungu sem flytur erindið „Myndir og fróðleikur frá Hólmsá“, Haukur Jóhannesson jarðfræðingur flytur erindið „Myrkur um miðjan dag – nokkur stórgos í Skaftárþingi“ og Ómar Þ. Ragnarsson fjölmiðlamaður flytur erindið „Stórkostlegastu sýningu í heimi getur að líta í Skaftárhreppi“.
Að loknum flutningi framsögumanna verða umræður og fyrirspurnir og málþinginu lýkur með samantekt um kl. 17. Málþingið er öllum opið og eru áhugasamir hvattir til að mæta.
Á undan málþinginu verður aðalfundur Eldvatna haldinn í félagsheimilinu Kirkjuhvoli og hefst hann kl. 13. Aðalfundurinn er öllum opinn og nýir félagar eru velkomnir.
Nánari upplýsingar um aðalfundinn og málþingið má fá með því að senda póst á netfangið eldvotn@gmail.com eða hafa samband í síma 8929650.
Í tilefni af málþinginu „Einstök náttúra Eldsveitanna“ mun Icelandair Hótel Klaustur bjóða upp á sértilboð á gistingu með morgunmat ásamt glæsilegu villibráðarhlaðborði, laugardagskvöldið 19. nóvember. Nánari upplýsingar eru veittar í síma 487-4900 eða á klaustur@icehotels.is.