Í kvöld kl. 20:30 heldur Sögufélag Árnesinga sinn fyrsta fræðslufund á árinu.
Þar mun Eiríkur G. Guðmundsson sviðsstjóri á Þjóðskjalasafni Íslands halda erindi um Stórubólu.
Bólufaraldurinn sem gekk á árunum 1707-1709 er víðfrægur og var mannfall mikið. Upphaf faraldurins var á Eyrarbakka, eins og frá greinir í Mælifellsannál við árið 1707: „Um sumarið kom út mannskæð bólusótt á Eyrum suður úr fötum og kistu þess stúdents Gísla Bjarnasonar, er úr bólunni dó fyrir Noregi; var kista að gerð og síðan í sjóinn kastað.“
Við árið 1708 segir í sama annál: „Var þá ekla stór á vinnufólki, sökum mannfæðar eptir bóluna, en víða nógar jarðir lausar.“
Mun Eiríkur í fyrirlestri sínum fjalla um hve víðtæk áhrif urðu af bólufaraldrinum og greina afleiðingar hans.
Fundurinn verður í Gömlu-Borg í Grímsnesi kl. 20:30 sem fyrr segir og eru allir velkomnir. Kaffiveitingar til sölu á staðnum.