Blítt og létt, söngkeppni nemendafélagsins Mímis í Menntaskólanum að Laugarvatni verður haldin í íþróttahúsinu á Laugarvatni fimmtudaginn 10. nóvember.
Jafnt kynjahlutfall í keppninni
„Þátttakan í ár er rosalega góð en tólf atriði eru skráð í keppnina. Það er mun meiri metnaður og meiri áhugi í ár en síðustu ár,“ segir Þorbjörg Guðrún Kristófersdóttir, skemmtinefndarformaður, í samtali við sunnlenska.is.
Þorbjörg segir að jafn margir strákar og stelpur taki þátt í keppninni. „Það er mikið af fólki sem tekur þátt í keppninni í ár sem spilar á hljóðfæri, fólk er með bakraddir og fleira. Þetta eru mjög flott atriði og hafa krakkarnir verið í stífum æfingum fyrir keppnina.“
Stranger Things þema
„Við erum með Stranger Things þema fyrir keppnina í ár. Við erum búin að vera mjög hugmyndarík – hugsa mikið út fyrir kassann – þegar kemur að því að skreyta salinn. Mjög góðar hugmyndir sem við erum búin að ná að framkvæma og hlökkum við mikið til að sjá hvernig þetta kemur út,“ segir Þorbjörg sem á von um að 400 manns mæti á keppnina.
„Ég hvet alla til að koma og horfa á keppnina, því að þetta er ekki bara söngkeppni heldur líka sýning. Við lofum stórri veislu. Það er mikil stemning kringum þetta og það verður líka extra mikil stemning þar sem þetta er líka kynningardagur fyrir grunnskólana en þá bjóðum nokkrum skólum sem eru hér í kring að koma skoða skólann og fá boðsmiða á keppnina,“ segir Þorbjörg og á þá við krakkana í 10. bekk, en þess má geta að margir krakkar velja að fara í ML að loknum grunnskóla því að skólinn hefur einstaklega gott orð á sér fyrir öflugt félagslíf.
Blítt og létt hefst klukkan 18:00 á fimmtudag og verða miðar seldir við hurð.