Brasilísk-íslenska stuttmyndin Ágústhiminn (p. Céu de Agosto) hefur verið valin í aðalkeppni Cannes kvikmyndahátíðarinnar í ár en tveir Sunnlendingar koma að myndinni.
Ágústhiminn er leikstýrð og skrifuð af hinni brasilísku Jasmin Tenucci en framleidd af Selfyssingnum Kára Úlfssyni og klippt af leikstjóranum og klipparanum Brúsa Ólasyni frá Litlu-Sandvík.
„Ég er ekki ennþá búinn að átta mig á því að við séum á leiðinni á Cannes. Ég fékk þessar fréttir undir svolítið skrítnum kringumstæðum. Ég er að vinna við nýju kvikmyndina hans Hlyns Pálmasonar og var því staddur á setti þegar það var hringt í mig úr frönsku númeri. Ég er að vinna með alþjóðlegu tökuliði svo ég hélt að þetta tengdist eitthvað vinnunni en svo fékk ég bara þessar fréttir,“ segir Kári í samtali við sunnlenska.is.
„Það er svo mikið að gera í þessum tökum að ég hélt að ég myndi ekki einu sinni komast á Cannes. En framleiðendurnir hérna urðu eiginlega bara spenntari yfir þessu en ég og skipuðu mér hreinlega að fara. Ég læt þau ekki segja mér það tvisvar.“
Búin að fá margar neitanir
„Við höfum verið að reyna koma þessari mynd á stóra hátíð síðan síðasta sumar. Við vissum að við værum með mynd í höndunum sem ætti heima á stórri og virtri hátíð. Í ágúst á síðasta ári fengum við neitun frá Feneyjum, svo yfir veturinn fengum við allskonar neitanir frá stórum hátíðum. Í apríl fengum við síðan skilaboð um að við værum komin á shortlist fyrir Critics Week í Cannes, sem er sjálfstæð hátíð á sama tíma og nátengd Cannes kvikmyndahátíðinni.“
„Við vorum fáranlega spennt að vera loksins komin með séns á stórri hátíð en svo fyrir svona tveimur vikum fengum við póst um að við værum ekki valin þangað. Þetta var algjör skellur og þungt, því núna er næstum liðið heilt ár og aðeins örfáar A-lista hátíðir eftir. Við vorum ekki einu sinni búin að hugsa út í aðalkeppni Cannes hátíðarinnar og eiginlega búin að gleyma þeim möguleika þegar við fengum þetta símtal,“ segir Kári.
Byggt á raunverulegum atburðum
Ágústhiminn sækir innblástur sinn til raunverulegra atburða. „Ágústhiminn er stuttmynd sem gerist í Sao Paulo þann örlagaríka dag, 19. ágúst 2019, þegar reykmökkur úr skógareldum Amazon ferðaðist yfir hálfa heimsálfuna og breytti dag í nótt fyrir milljónir manna. Jasmin varð vitni að þessu og á þessu augnabliki leið henni eins og heimurinn væri að enda. Út frá þessu spratt hugmynd um að gera mynd um Luciu, ólétta konu undir miklu áreiti og finnur sig ekki í þessum deyjandi heimi. Vafasamur trúarhópur tekur henni þó opnum örmum og þar finnur hún loksins það samfélag sem hún svo sárvantar.“
„Við vorum að vinna að annarri hugmynd í um það bil ár og vorum komin með styrki til að gera þá mynd þegar þessir atburðir gerðust 19. ágúst í Sao Paulo. Jasmin hringdi mjög fljótlega í mig og sagði mér að hún vildi nú vinna með þessa algjörlega nýju hugmynd. Ég var fljótur að stökkva til og náði að færa styrkina yfir á nýja verkefnið og fór strax í áframhaldandi fjármögnun því þetta var mun dýrari mynd. Eftir það fórum við að vinna með brasilískum framleiðendum sem myndu sjá um að skipuleggja tökur og fóru þær fram í janúar 2020. Eftir það tók síðan við langt klippi- og eftivinnsluferli þar sem Brúsi sá um að klippa myndina. Hún breyttist gífurlega við það,“ segir Kári.
Bestu vinir síðan í barnæsku
Kári og Brúsi eru æskuvinir og hafa unnið mikið saman. Aðspurður hvort samstarfið reyni ekki á vináttuna segir Kári svo ekki vera. „Ég og Brúsi vinnum alltaf vel saman. Við höfum verið teymi síðan við gerðum okkar fyrstu mynd saman, Sjáumst árið 2016. Síðan þá höfum við gert fleiri stuttmyndir og ferðast um heiminn á kvikmyndahátíðir, en Cannes er nú líklega sú stærsta. Við þetta verkefni unnum við svolítið öðruvísi saman en vanalega, núna var hann ekki leikstjórinn, heldur klipparinn. Það er ekki eins náið ferli en þrátt fyrir það unnum við mikið saman í þessari kvikmynd.“
„Ég hef framleitt stuttmyndir með Brúsa síðan 2016. Þessum myndum hefur gengið afskaplega vel á hátíðum og í raun verið það helsta sem maður hefur unnið að því ég og Brúsi erum mjög nánir og erum bestu vinir jafnt sem vinnufélagar. Ég hef einnig unnið mikið með erlendum leikstjórum og framleitt stuttmyndir í New York, New Jersey og Nebraska. Ég fór í Columbia
háskóla til að læra skapandi framleiðslu og útskrifaðist þaðan sumarið 2020. Núna erum við Brúsi að vinna að okkar eigin hugmyndum og ætlum að gera okkar fyrstu kvikmynd í fullri lengd sem fyrst,“ segir Kári.
Þurfa að vera með bólusetningarskírteinið á sér
Kvikmyndahátíðinni í Cannes var frestað í fyrra vegna heimsfaraldursins. Aðspurður hvort COVID muni hafa einhver áhrif á Cannes hátíðina í ár segir Kári svo vera. „Það er erfiðara að komast út því maður þarf að huga meira að reglugerðum varðandi sóttkví og fleira. Sem betur fer eigum við að vera fullbólusettir þegar hátíðin verður og það mun gera lífið mun auðveldara fyrir okkur. Á hátíðinni sjálfri þurfa gestir að annaðhvort vera með skírteini upp á bólusetningu eða með neikvætt próf á sér.”
Kári og Brúsi, sem eru báðir búsettir á Íslandi um þessar mundir, fara út í júlí og stefna á að sjá frumsýningu á myndinni sinni í Cannes. Kvikmyndahátíðin í Cannes er haldin 6. til 17. júlí.
„Framtíðarmarkmiðið er að gera kvikmynd í fullri lengd heima á Íslandi. Líka að gera sjónvarpsþætti. Og jafnvel fleiri stuttmyndir. Mörg plön. Allavega aðallega að vinna við bíó,“ segir Kári að lokum.