Menningarsalurinn er ljótt skrúmmelúmm. En síðastliðið sunnudagskvöld var hann ekki alveg eins ljótur.
Þá var þriðja sýning Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands á frumsömdu leikriti þeirra, Týpískri ástarsögu.
Leikritið Týpísk ástarsaga er frumsamið af fjórum krökkum úr skólanum sem þekkja greinilega vel til hvernig staðalímyndir í menntaskólu eru. Og ekki bara þar, því þau stoppa víða við í ferð sinni um hinn dæmigerða íslenska heim. En hér mun ekki ljóstrað of miklu upp.
Leikararnir eru allir saman úrvalslið og tekst leikstjóranum Kára Viðarssyni vel upp og lætur hvern og einn gera sitt besta. Fremstir meðal jafningja eru þeir Hjalti Leifsson og Jónas Ellertsson sem leikur hinn afskaplega vonlausa Bibba. Svo mikill auli var hann Bibbi að sá sem hér skrifar varð oft á tíðum mjög óþolinmóður og langaði helst að hlaupa upp á svið og gefa honum einn á hann. Hjalti leikur hinn aumkunar- en jafnframt aðdáunarverða Axel af svo mikilli innlifun að það mætti halda að þetta væri hlutverk sniðið að honum.
Margt má að sjálfsögðu bæta eins og í mörgum öðrum sýningum. Þó að allir í leikhópnum hafi greinilega lagt hart að sér að tala skýrt og á eðlilegum hraða varð það stundum þannig að þeir duttu úr karakter þegar þeir einbeittu sér of mikið að þessu og varð sýningin þá stundum dálítið óeðlileg í flæði og öðru. Einnig hefði mátt snurfusa margt í kringum leikgerðina en ákveðin atriði áttu það til að verða dálítið vandræðaleg. En það er ekkert sem góður brandari lagar ekki. Sem þeir og gerðu.
Orðið týpískt er mikið notað þessa dagana og þá oft mjög frjálslega. Hvað er svona týpískt við það að strákur verði ástfanginn af annarri stelpu. Það eru ekki bara ákveðnar týpur sem verða það heldur allar týpur. Hvort sem það eru nördar, íþróttagæjar eða ,,skinkur” þá hafa allar þessar týpur sína sögu að segja. Og það heppnast vel hjá þeim í NFSu. Undirritaður hló oft mjög dátt og í hærra lagi af mörgum góðum Stjörnustríðs-bröndurum og öðrum ,,nördalegum” innskotum.
Týpísk ástarsaga er hin fínasta skemmtun, sem er ekki gerð fyrir fýlupúka.
Gunnlaugur Bjarnason