Sinfóníuhljómsveit Suðurlands heldur Vínartónleika í Hvolnum á Hvolsvelli þann 7. janúar og er það næsta skref í mjög farsælu starfi hljómsveitarinnar sem hefur starfað í tæp þrjú ár. Á síðustu tónleikum hljómsveitarinnar, þann 10. desember síðastliðinn, fylltu á þriðja hundrað tónleikagesta Selfosskirkju.
„Þeir tókust frábærlega. Það er ekki hægt að hafa neitt annað orð yfir það og ég er afar þakklátur öllum þeim sem komu fram, einsöngvurum, hljóðfæraleikurum, kórum, kórstjórum og bara öllum sem bjuggu til þessa töfrastund og það er ekki hægt að fara fram á meira en langvarandi standandi lófatak og lofsamleg ummæli tónleikagesta að tónleikunum loknum,“ segir hljómsveitarstjórinn Guðmundur Óli Gunnarsson um jólatónleikana í Selfosskirkju.
„Við sýndum fram á að það er mögulegt að halda tónleika af miklum listrænum metnaði með stórri sinfónískri hljómsveit, Sinfóníuhljómsveit Suðurlands, og skapa með starfi hennar nýjan veruleika í menningarlífi Suðurlands, bæði fyrirtónlistarfólk af öllu tagi sem og tónlistarunnendur,“ bætir Guðmundur við.
Brjáluð bjartsýni og elja
En hvað þarf til að svona hljómsveit verði til? „Brjálaða bjartsýni og einlæga trú á að starfsemi slíkrar hljómsveitar efli mannlíf og menningu og geri samfélagið sem maður býr í betra og auðugra,“ svarar Guðmundur Óli. „Og að auki þarf auðvitað að vera faglegur grundvöllur fyrir starfsemi slíkrar hljómsveitar og við höfum sýnt og sannað að svo er.“
Hinir klassísku Vínartónleikar í janúar
Næsta verkefni eru svo Vínartónleikarnir í Hvolnum á Hvolsvelli. Þar kemur fram 14 manna sinfónísk hljómsveit ásamt Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Diddú, og Karlakór Rangæinga sem er að koma fram í annað sinn með hljómsveitinni.
„Þetta verða ekta Vínartónleikar með tilheyrandi Kampavínsgalloppum og Straussvölsum og Diddú er auðvitað okkar draumadíva í þessu tónleikaprógrammi,“ segir Guðmundur Óli og bætir við að eðli máli samkvæmt séu ekki jafn margir flytjendur á Vínartónleikunum.
Sunnlenska samfélagið og listrænn metnaður
Guðmundur Óli segir að í huga þeirra sem standa að hljómsveitinni skipti miklu máli fyrir sérhvert samfélag að eiga öflugar menningarstofnanir sem auðga líf íbúanna og breyta ímynd svæðisins í víðara samhengi.
„Við höfum, eins og áður segir, óbilandi trú á því að það sem við erum að gera skipti máli í stærra samhengi,“ segir Guðmundur Óli. „Starfsemi hljómsveitarinnar er mikilvæg fyrir atvinnutónlistarfólk á Suðurlandi og hún er ekki síður mikilvægur liður í farsælli þróun samfélagsins.“
Miðasala á Vínartónleika Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands er á tix.is