Selfyssingurinn Elvar Gunnarsson ríður á vaðið sem fyrsti gestasöngvari Hr. Eydísar í föstudagslaginu. Eydís-lagið sem hann syngur er Only When You Leave með Spandau Ballet.
Elvar er Sunnlendingum góðkunnur og hefur tekið þátt í tónlistarlífinu á Suðurlandi til áratuga. Hann steig fyrst fram á sjónarsviðið í hæfileikakeppni hjómsveitarinnar Karma sem Labbi í Mánum stýrði árið 1989. Elvar var einnig söngvari í hljómsveitunum Djassband Geira Smart, Nepall, Tommi rótari, Cantina og Riff ReddHedd.
Only When You Leave kom út vorið 1984 og var fyrsta smáskífa Spandau Ballet af plötunni Parade. Plötunni var vel tekið af gagnrýnendum sem þótti platan fáguð og vel gerð. Only When You Leave varð þó ekki stærra en fyrri smellir eins og t.d. True, sem er eitt þeirra þekktasta lag. Það varð einmitt svo að Only When You Leave var síðasta viðkoma Spandau Ballet á Billboard Hot 100 í Bandaríkjunum.
„Spandau Ballet var eitt af þessum stóru, var nefnt í sömu andrá og Duran Duran og Wham þegar talað var um aðal hljómsveitirnar „in the 80´s“. Nokkur laga þeirra heyrast enn í dag í útvarpi. Okkur þótti tilvalið að taka Only When You Leave með Elvari, þetta er flott lag sem hefur fallið aðeins í skuggann á True og Through the Barricades,“ segir Örlygur Smári, söngvari og gítarleikari Hr. Eydís.