Emilía Hugrún Lárusdóttir frá Þorlákshöfn sigraði í Söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands sem fram fór í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í kvöld.
Emilía Hugrún söng hið klassíska sálarlag I’d Rather Go Blind sem Etta James gerði vinsælt á sínum tíma. Emilía Hugrún lagði svo sannarlega sálina í flutninginn og hreif hug og hjörtu dómnefndar og áhorfenda sem fylltu Iðu í kvöld.
Í 2. sæti varð Elísabet Björgvinsdóttir frá Selfossi sem flutti lagið Jealous eftir Labrinth og í 3. sæti varð Klara Ósk Sigurðardóttir frá Selfossi með Billy Joel Lagið New York State of Mind. Aron Birkir Guðmundsson frá Hellu fékk verðlaun fyrir skemmtilegasta atriðið en hann söng Queen lagið Don’t Stop Me Now.
Söngkeppnin er einn af hápunktum félagslífsins í Fjölbrautaskóla Suðurlands og keppist söngvakeppnisnefndin við það að hafa kvöldið sem glæsilegast. Það gekk svo sannarlega eftir í kvöld en þema keppninnar var Mamma Mia. Ellefu keppendur tóku þátt í keppninni og hefur sunnlenska.is það eftir áræðanlegum heimildum að dómnefndin hafi sjaldan átt í jafn miklum vandræðum með að galdra fram úrslitin.