Engill með húfu er yfirskrift þriðju tónleika tónlistarhátíðarinnar Englar og menn í Strandarkirkju í Selvogi nk. sunnudag kl. 14.
Ungstirnin Hanna Ágústa Olgeirsdóttir sópran, Steinunn María Þormar sópran og Birgir Stefánsson tenór stíga þar á stokk og með þeim leikur Jón Sigurðsson á píanó.
Á fjölbreyttri efnisskrá þeirra eru íslensk sönglög eftir Sigfús Einarsson, Steinunni Þorvaldsdóttur, Hildigunni Rúnarsdóttur, Inga T. Lárusson o.fl., aríur eftir G. Puccini og G. Bizet og trúarleg verk eftir J.S. Bach og C. Gounod. Yfirskrift tónleikanna er lína úr ljóði Jónasar Hallgrímssonar Ég bið að heilsa sem hann orti árið 1844 og flutt verður á tónleikunum.
Aðgangseyrir er kr. 4.000 og miðasala er við innganginn. Tónleikarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Suðurlands og Kaffihúsinu/Pylsuvagninum í Selvogi, þar sem kjörið er að gæða sér á góðum veitingum að tónleikum loknum.