Englar, menn og snædrottning

Ballettinn Englajól verður frumfluttur á tónleikum Töfrahurðarinnar í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 5. desember nk.

Tónlistina við ballettinn samdi Elín Gunnlaugsdóttir, tónskáld á Selfossi, og er verkið byggt á samnefndri sögu eftir Guðrúnu Helgadóttur. Flytjendur tónlistarinnar eru Pamela De Sensi, flauta, Frank Aarnink, slagverk, Katie Buckly, harpa og Ólöf Sigursveinsdóttir, selló en þau tilheyra öll Sheherazade-hópnum. Dansarar eru nemendur í Listdansskóla Íslands. Sérstakur gestur á tónleikunum er Kársneskórinn undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur.

Í sögunni Englajólum ákveða englarnir að halda jól á himnum. Þeir ímynda sér fallegt jólatré sem þeir skreyta með stjörnum og norðurljósum. Fuglarnir flykkjast að trénu og karlinn í tunglinu kemur líka við sögu. Í lok sögunnar tekst svo englunum að safna börnum frá öllum heimshornum í kringum jólatréð og sagan og ballettinn enda á því að allir ganga í kringum tréð og syngja saman.

Í tónlistinni er leitast við að fanga stemmninguna á himnum en stundum er kíkt niður á jörðina þar sem jólastressið ræður ríkjum. Karlinn í tunglinu og norðurljósin fá líka að láta ljós sitt skína. Dansarnir við tónlistina eru samdir af kennurum og nemendum Listdansskóla Íslands.

Snædrottningin Brrrrrynja og álfurinn Frosti sjá um að allt gangi vel á sviðinu og kynna tónlistina fyrir áheyrendum en ýmis önnur skemmtileg tónlist verður flutt.

Sýningin hefst kl. 13 en frá klukkan 12:30 verða fjöllistamenn frá Götuleikhúsinu með sprell og einnig andlistmálarar sem skreyta krakkana svo hæfi tímanum. Krakkar eru hvattir til að koma í grímubúningum, álfar, drottningar, eitthvað tengt snjó og jólum.

Tónleikar Töfrahurðarinnar eru um ein klukkustund. Forsala aðgöngumiða er í Salnum í Kópavogi www.salurinn.is eða www.tofrahurd.is, en miðinn kostar 1.500 kr.

Fyrri greinOpið fyrir hugmyndir
Næsta greinEndurminningar og eldgamalt sakamál