Tónlistarhátíðin Englar og menn hefst í Strandarkirkju sunnudaginn 3. júlí nk. og verður alla sunnudaga í júlí.
Hátíðin er nú haldin í fjórða sinn og verður í ár glæsileg sönghátíð líkt og á síðasta ári þar sem fjölmargir þjóðþekktir listamenn koma fram.
Þema hátíðarinnar er englar og menn, land, náttúra, trú og saga þar sem íslensk þjóðlög og sönglög, ásamt innlendum og erlendum trúarljóðum og klassískum verkum, hljóma á um klukkustundarlöngum tónleikum.
Hátíðin hefst með þjóðlagatónleikum undir yfirskriftinni „Sálir okkar mætast“ þar sem Ragnheiður Gröndal söngkona og Guðmundur Pétursson gítarleikari koma fram en sérstakir gestir á tónleikunum verða breska þjóðlagasöngkonan Heloise Pilkington og með henni leikur Jennifer Bennett á gömbu. Þær koma frá Glastonbury og sérhæfa sig í breskri þjóðlagatónlist og sérstaklega andlega arfinum, tónlist tileinkaðri móðurkraftinum og trúarlegum söngvum.
„Verndarvængur“ er yfirskrift tónleikanna 10. júlí en þar koma fram Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona og Einar Clausen tenór og með þeim leika Chrissie Guðmundsdóttir á fiðlu, Ingunn Erla Kristjánsdóttir á selló og Hilmar Örn Agnarsson á orgel.
Þann 17. júlí koma fram söngvararnir Kristín Ragnhildur Sigurðardóttir sópran og Ásgeir Páll Ágústsson baritón og meðleikari þeirra verður Arnhildur Valgarðsdóttir organisti.
„Í ljúfum blæ“ er svo yfirskrift tónleika hjónanna Þóru Einarsdóttur sópran og Björns Jónsonar tenórs sem haldnir verða 24. júlí og með þeim leikur Svanur Vilbergsson á gítar.
Lokatónleikar hátíðarinnar verða svo 31. júlí en þar koma fram Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran og Ágúst Ólaffsson baritón og með þeim leikur Jón Bjarnason á orgel.
Tónleikarnir hefjast allir kl. 14 og erum um 50 mínútna langir.
Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Nýsköpunarsjóði Suðurlands, Tónlistarsjóði og Strandarkirkjunefnd. Aðgangseyrir að tónleikunum er 2.000 kr. Ekki er tekið við greiðslukortum. Að tónleikum loknum er svo upplagt að fá sér hressingu hjá heimamönnum í kaffihúsinu T-bæ eða í Pylsuvagninum.
Strandarkirkja er þekkt áheitakirkja og þykir þar vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni.