Tónlistarhátíðin Englar og menn í Strandarkirkju hefst á sunnudaginn kemur, 19. júní með tónleikum kl. 16.
Hátíðin er nú haldin í tíunda sinn og stendur yfir til 24. júlí en fresta þurfti tvennum tónleikum á síðasta sumri vegna Covid sem bætast nú við hátíðina í ár.
Á tónleikunum á sunnudag koma fram þau Sigríður Aðalsteinsdóttir söngkona, Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari, Guðbjartur Hákonarson fiðluleikari og Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir sellóleikari. Yfirskrift tónleikanna er „Í sjöunda himni“, en þau munu flytja fjölbreytta og stórskemmtilega dagskrá eftir íslenska og erlenda höfunda.
Sunnudaginn 26. júní verður Tónlistarmessa þar sem sr. Ninna Sif Svavarsdóttir þjónar en tónlistina annast Björg Þórhallsdóttir sópran, Hilmar Örn Agnarsson leikur á orgel og harmóníum og Matthías Nardeau á óbó.
Í júlímánuði verða svo fjölbreyttir og spennandi tónleikar á sunnudögum kl. 14 frá 3.-24. júlí.
Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er sem fyrr Björg Þórhallsdóttir og aðgangseyrir er 3.500 krónur.
Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlennskra sveitarfélaga og Tónlistarsjóði.