Hr. Eydís hefur sent frá sér nýja ´80s ábreiðu en lagið er eitt af þessum sem margir eru búnir að gleyma en þekkja samt strax þegar þeir heyra. Þetta er lagið St. Elmos Fire (Man in Motion) með John Parr.
Það syngur ekki hver sem er þetta lag, laglínan fer upp í hæstu hæðir. Það kom því enginn annar til greina í verkið en gullbarkinn Dagur Sigurðsson. Hann gjörsamlega rúllaði þessu erfiða lagi upp eins og að drekka vatn.
Lagið er úr samnefndri bíómynd sem var mjög vinsæl árið 1985. Kvikmyndinni var reyndar slátrað af gagnrýnendum, en þeir hafa sem betur fer ekki alltaf rétt fyrir sér því unga fólkið flykktist á myndina. Ekki skemmdi fyrir að í myndinni léku margir af alvinsælustu ungu leikurunum í Hollywood, t.d. Demi Moore, Rob Lowe og fleiri góðir. Lagið úr myndinni hafði því forskot á önnur og rauk upp vinsældalistana um allan heim.
„Ég man þegar ég kom heim úr Miðfirði eftir sveitavinnu sumarsins 1985 og uppgötvaði þetta frábæra lag sem hafði alveg farið framhjá mér í sveitinni. Missti hins vegar af bíómyndinni og hef enn ekki séð hana, kannski kominn tími til núna,“ segir Örlygur Smári í Hr. Eydís og hlær dátt.