Það er komið að enn einu föstudagslaginu frá Hr. Eydís. Að þessu sinni syngur með þeim stórsöngkonan Erna Hrönn sem verður á sviðinu með Hr. Eydís á tónleikaröðinni Alvöru ´80s partý sem hefst 24. febrúar í Bæjarbíói, svo á Græna hattinum og endar á Sviðinu á Selfossi.
Lagið að þessu sinni er Flashdance… What a Feeling með Irene Cara úr kvikmyndinni Flashdance. Kvikmyndin Flashdance sem kom út árið 1983 varð alveg feykilega vinsæl og áttu lögin í myndinni sannarlega sinn þátt í þeirri velgengni, enda alveg stórgóð.
Flashdance var gerð í anda MTV, sem var þá ný sjónvarpsstöð, enda sögðu margir gagnrýnendur að kvikmyndin væri eins og að horfa á MTV í 90 mínútur.
En almenningi stóð algjörlega á sama, kvikmyndin var frábær skemmtun og flykktist fólk í Háskólabíó á sínum tíma til að berja hana augum. Aðalleikkonan Jennifer Beals varð fyrsta ást margra og ef rétt er munað var fjörið á myndinni um helgar það mikið að áhorfendur flykktust upp á svið og dönsuðu með lokaatriðinu.
„Ég var tólf ára þegar ég fór með mömmu og systkinum mínum í Háskólabíó á myndina. Það var fullur salur og alveg tryllt stemmning. Maður gekk út með sælubros á vör og nýastfanginn af aðalleikonunni Jennifer Beals,“ segir Örlygur Smári söngvari og gítarleikari Hr. Eydís og brosir að minningunni.